15 February 2002

Fitch staðfestir lánshæfiseinkunn Íslands í AA flokki; horfur nú taldar neikvæðar í stað stöðugra

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch staðfesti hinn 15. febrúar 2002 lánshæfiseinkunnina AA- fyrir ríkissjóð Íslands vegna lána í erlendri mynt. Fyrirtækið staðfesti jafnframt lánshæfiseinkunnir fyrir skuldbindingar í íslenskum krónum en þær eru AAA fyrir langtímaskuldbindingar og F1+ fyrir skammtímalán. Horfur um lánshæfiseinkunnir vegna langtímalána eru nú taldar neikvæðar en voru áður stöðugar.

Í frétt Fitch segir að á síðasta ári hafi hægt verulega á hagvexti á Íslandi. Gengi krónunnar lækkaði í kjölfar þess að horfið var frá fastgengisstefnu í mars á sl. ári. Áætlað er að hagvöxtur hafi minnkað í 2,2% árið 2001. Gert er ráð fyrir samdrætti á árinu 2002. Við þessar aðstæður hafa afkoma ríkissjóðs og skuldastaða hins opinbera versnað. Fitch telur hins vegar að slík aðlögun hafi verið nauðsynleg til að draga úr viðskiptahalla. Hann varð mestur á árinu 2000 og nam þá um 10% af landsframleiðslu, en minnkaði niður í 6,6% á árinu 2001 og gert er ráð fyrir að hann fari niður fyrir 5% á þessu ári. Eigi að síður telur Fitch að aðlögunin sem nú á sér stað gæti reynst erfiðari en ráð er fyrir gert.

Á síðastliðnum áratug hefur Ísland náð góðum árangri í ríkisfjármálum og umbótum í hagkerfinu. Ásamt hagstæðu viðskiptaumhverfi auðveldar það hagkerfinu að takast á við niðursveifluna. Þrátt fyrir versnandi afkomu á árinu 2001 er staða ríkissjóðs tiltölulega sterk og hlutfall skulda hins opinbera af landsframleiðslu er tiltölulega hagstætt miðað við ríki sem notuð eru til samanburðar. Heildarskuldir hins opinbera erlendis jukust þó á árinu 2001 vegna nýrra lána til að styrkja gjaldeyrisforða Seðlabankans. Hlutfall skulda hins opinbera af útflutningstekjum er nú hærra en að meðaltali í samanburðarríkjum. Gangi áætlanir um einkavæðingu ríkisfyrirtækja eftir gæti þetta hlutfall lækkað á ný. Ekki er víst að öll markmið stjórnvalda um einkavæðingu nái fram að ganga og meiri samdráttur í hagkerfinu en nú er búist við myndi hafa neikvæð áhrif á ríkisfjármál. Slíkt gæti einnig haft áhrif á bankakerfið. Bankakerfið stendur hins vegar tiltölulega traustum fótum með hagstætt eiginfjárhlutfall og lítil vanskil. Þá eru áhrif gengislækkunarinnar á efnahag einkageirans minni en ætla mætti vegna þess að mikill hluti erlendra skulda er hjá útflutningsfyrirtækjum sem hafa hagnast á lækkun gengisins. Fitch gerir því ekki ráð fyrir að bankar þarfnist neinnar opinberrar aðstoðar.

Til lengri tíma litið mun minni viðskiptahalli fela í sér að erlenda skuldastaðan verður viðráðanlegri. Hin nýja peningamálastefna sem felst í verðbólgumarkmiði og markaðsgengi styrkir þessa mynd auk þess að bæta getu hagkerfisins til að bregðast við ytri áföllum. Skuldastaðan mun samt sem áður enn um sinn takmarka möguleika á betra lánshæfismati. Hreinar skuldir erlendis hafa aukist verulega frá því að lánshæfiseinkunnin "AA-" (AA mínus) var gefin í febrúar árið 2000. Þær nema nú um 266% af útflutningstekjum sem er með því hæsta sem þekkist hjá þeim ríkjum sem Fitch gefur lánshæfiseinkunn.

Nánari upplýsingar veita Birgir Ísleifur Gunnarsson formaður bankastjórnar og Jón Sigurgeirsson, framkvæmdastjóri alþjóðasviðs í síma 569-9600.

  

 

Nr. 5/2002
15. febrúar 2002

 

 

 

Back